Kryddlegið ávaxtasalat

Þetta er yndislega gott þó það borgi sig að gera það kvöldið áður en það er borið fram til þess að kryddin nái sér vel á strik.Þessi réttur minnti mig mikið á miðjarðarhafið og löndin þar í kring en líka pínulítið á sunnudagseftirrétt úr bernsku minni, niðursoðnir blandaðir ávextir með rjóma, en bara miklu betra!




Ávextir í salatið
3-4 vænar og stinnar perur
1 bökunarepli (gult eða grænt)
Fræ úr hálfu granatepli

Kryddlögur
3/4 bolli sykur
4 bollar vatn
3 anísstjörnur
1/2 vanillustöng, klofin eftir endilöngu
8 þurrkaðar aprikósur, skornar í tvennt
8 þurrkaðar gráfíkjur, skornar í fernt
Sítrónubörkur, fjórar 3-5 sm langar sneiðar sem best er að skera með flysjara,
kreistið líka safann úr sítrónunni því hann er notaður líka

Setjið vatn, sykur, stjörnuanís og vanillustöng og sítrónubörk í pott og komið upp suðu. Sjóðið við hægan hita uns sykurinn er vel uppleystur og ilmurinn kominn vel fram. Takið af hellunni og látið kólna rétt aðeins áður en þið bætið brytjuðum þurrkuðu ávöxtunum saman við. Þá er þetta kælt vel áður en lengra er haldið.

Flysjið perurnar og skerið í fremur þunnar sneiðar og gerið eins með eplið. Setjið í skál og blandið sítrónusafnanum saman við. Hellið þá köldum sykurleginum ásamt öllu sem í honum er yfir og þéttið skálina með plastfilmu. Geymið í ísskáp til næsta dags.

Hellið leginum frá og takið sítrónubörkinn, anís og vanillustöng í burtu. Setjið í skál og dreifið granateplafræjum yfir og berið fram.

Með þessu má hafa hreinan þeyttan rjóma, eða kryddrjóma


Kryddrjómi
Einn peli rjómi, þeyttur
Ein dós sýrður rjómi (10%)  sem er hrærður áður en honum er bætt við þeytta rjómann
1 tsk kanill og hálf teskeið vanillusykur

Bon appetit!

Ummæli