Vanilluhringir

Já, þessir gömlu góðu. Ég gerði þetta fyrst núna fyrir jólin 2012 því ég fékk loksins járn á gömlu hakkavélina mína í haust í Þorsteini Bergmann, þeirri eðalbúsáhaldabúð.


Uppskriftina fann ég í biblíu íslenskra kvenna, Helgu Sig og hún er svona:

1/2 kg hveiti
375 g smjörlíki
250 g sykur
1 egg
1/4 tsk hjartarsalt
Vanilla

Nú voru góð ráð dýr, ég á aldrei hjartarsalt og Helga segir ekki hvað eigi að vera mikil vanilla í vanilluhringjunum! Hringdi í mömmu og spurði hvort það hefði úrslitaáhrif að sleppa þessari 1/4 teskeið í hálfu kílói af hveiti og hún sagði nei (hjúkk), þá spurði ég hvað ætti að setja mikið af vanilludropum og þá snerist dæmið nú aðeins því svarið var "þú verður bara að prófa og smakka" - hmmm.

Jæja, hveitinu skellt í hrærivélaskálina og hnoðarinn settur á, sykrinum blandað varlega saman við og mjúku SMJÖRI (nota alltaf smjör í jólasmákökur) bætt saman við í bitum, látið hnoðast rólega og eggi bætt saman við. Þá var bara vafaatriðið eftir, vanillan, setti fyrst einn tappa, horfði aðeins á massann og setti síðan annan hálf fullan. Næst hika ég ekki við að setja tvo tappa. Deigið er síðan handhnoðað í slétta og fallega kúlu, pakkað í plast og kælt í ísskáp yfir nótt hið minnsta. Síðan er járnið góða sett á hakkavélina, deigið sett í bitum í hana og þegar lengjan sem út kemur er ca. 10 sm löng er hún tekin og mótuð í hring og sett á bökunarplötu.



Bakað við 200°C í 8-10 mín., mikilvægt að fylgjast með og láta þær ekki ofbakast.

Bon appetit!

Ummæli

  1. Halló halló, er að prófa í fyrsta skipti og á ekki þetta blessaða járn. Er búin að setja í sprautupoka en það er nær ógerningur að sprauta þessu út, deigið er svo þykkt. Þá eru góð ráð dýr. Hvernig gerðir þú þetta áður en þú notaðir járnið á vélina þína?

    SvaraEyða
    Svör
    1. Hæ Sunna, það er illgerlegt að nota sprautupoka og ég bakaði þetta ekki áður en ég fékk járnið, ég myndi frekar gera mjóar lengjur og móta hringi, eða hreinlega skera deigið niður og baka eins og aðrar smákökur.

      Eyða

Skrifa ummæli