Sítrónuterta að frönskum hætti

Við fórum í brúðkaupsferð til Frakklands sumarið 2015 og þar fékk ég svo góða sítrónuböku í eftirrétt að ég linnti ekki látum fyrr en ég var búin að finna uppskrift sem ég gat notað til að endurskapa þessa himnasælu. Og ekki spillti það fyrir að hún er hitaeiningaminni en orginallinn, því það er sýrður rjómi í henni í staðinn fyrir rjóma :)



Fyrst þarf að gera bökudeigið

140 g hveiti
50 g smjör
1 eggjarauða
1 tsk flórsykur
1 msk matarolía
og 1-2 msk vatn

Smjörið skorið í teninga og mulið saman við hveitið milli handanna uns þetta verður að jafnri mylsnu. Þá er flórsykrinum blandað saman við. Að síðustu er eggjarauðu, olíu og 1-2 msk af köldu vatni hnoðað saman við uns deigið verður að kúlu. Fletjið deigið út í bökuform, pikkið með gaffli og setjið í ísskápinn í ca. 10 mínútur. Kveikið á ofninum, 180°C og blástur eða 190°C án blásturs.


Þá er komið að fyllingunni

3 meðalstór egg og tvær eggjahvítur
140 gr flórsykur
tvær matskeiðar rifinn börkur af sítrónu (muna að þvo hana vel úr volgu vatni fyrst)
125 ml sítrónusafi, sem er safi úr 4-5 sítrónum
1 dós sýrður rjómi (ég nota 10%)

Setjið eggin í skál og hrærið þau saman með sleif, sigtið flórsykurinn smám saman og hrærið stöðugt í. Ef blandan verður kekkjótt getið þið þeytt hana aðeins með sósuþeytara eða gaffli. Hrærið því næst sítrónuberkinum og sítrónusafanum saman við og látið standa meðan þið bakið botninn, þannig nær sítrónan að draga fram meira bragð.


Næst er að baka botninn og svo fyllinguna

Setjið bökunarpappír yfir og fergjið með hrísgrjónum eða þurrum baunum og bakið í 20 mín. Takið út og takið pappírinn varlega af og baunir eða grjón. Bakið án fargs í ca 5 mín og þá ætti deigið að vera gullið og tilbúið. Takið út og geymið á meðan lokahönd er lögð á fyllinguna, hrærið sýrða rjómann í skál uns hann er kekkjalaus (ef einhverjum er illa við börkinn, má sigta fyllinguna á þessu stigi áður en sýrði rjóminn er hrærður samanvið) þá er hann hrærður rólega saman við sítrónueggjablönduna. Ef skálin er ekki gerð til þess að hella úr henni, er best að setja blönduna í könnu. Setjið nú bökuformið á hálfútdregna ofngrindina og hellið fyllingunni rólega í hana og setjið hana varlega inn í ofninn. Minnkið hitann á ofninum í 150°C og bakið í 25-30 mínútur. Þá er bakan tekin út og látin kólna alveg áður en flórsykri er dreift yfir.



Bon appetit!

Ummæli