Rifsberjahlaup

Rifsberjahlaup er svo miklu miklu betra heimagert en keypt í búð, það er allt annað og meira bragð af þessu heimagerða svo ég hvet ykkur til að prófa og verja einum degi til þess að gera það ef þið hafið aðgang að rifsberjarunnum einhversstaðar


Ég hef stuðst við biblíu íslenskra húsmæðra, Helgu Sig., en ég nota minni sykur og nota hleypi fyrir sykurminni sultur og hlaup (einn gulan og einn bláan).

Rifsber, 1 kg.
5-600 g. sykur
1 poki hleypir - þetta er þumalfingurreglan.

Ég fékk 2,5 kíló af rifsberjum að þessu sinni og notaði 1,6 kíló af sykri og tvo poka af hleypi.

Byrjið á að skola berin og hreinsa lauf frá, stilkarnir mega vera og eitt og eitt lauf er allt í lagi. Setjið síðan í nógu stóran pott og blandið sykrinum saman við, hrærið lauslega og komið suðu upp rólega.


Þegar suðan er komin upp þarf að fleyta froðuna ofan af, því betur sem maður vandar sig við það því tærari verður hlaupið, en ég er ekkert of smámunasöm með það. Sultan þarf ekki langa suðu, 10 mínútur er nóg, þá þarf að sigta hana. Sumir eiga grisjupoka en það getur verið nóg að nota þétt sigti. 



Hér reynir svolítið á þolinmæðina því þetta þarf að leka í gegn og ekki þjappa berjamaukið í sigtinu um of því þá verður sultan skýjuð. En á meðan er gott að undirbúa krukkurnar. 


Ég nota alltaf gamlar krukkur undan hinu og þessu, þvæ þær vel og set rakar í ofnskúffuna og leyfi þeim að vera á 120°C meðan ég er að sigta og hleypi suðunni upp aftur á berjasafanum.

Þegar safinn er kominn í pott er suðunni hleypt upp að nýju og aftur þarf að fleyta af bleiku froðuna sem kemur, nú er hleypinum bætt við, soðið eins og leiðbeiningar á pakka mæla með.

Þá eru krukkurnar teknar úr ofninum, hlaupinu ausið í og krukkunni lokað strax. Það er gott að nota mjúka ofnhanska við þetta svo maður brenni sig ekki.


Látið kólna og njótið síðan á vetrarkvöldum með góðum ostum eða mat. Ef þið viljið getið þið soðið saft úr hratinu, þá setjið þið það í pottinn og bætið við vatni. Hleypið upp suðu og setjið 1 msk af Benson nat í hvern lítra. Setjið á flöskur og njótið, t.d. með kolsýrðu vatni.



Bon appetit!

Ummæli