Vatnsdeigsbollur með mokkarjóma og karamellubráð

Svona bollum ánetjaðist ég í Kaupmannahöfn haustið 1992 og því ættu þær eiginlega að heita Hafnarbollur eða Bollurnar frá Köben. Ég var ófrísk af mínu fyrsta barni og átti von á mér innan bráðar og gekk daglega um hverfið til að fá hreyfingu og ferskt loft, gönguferðin endaði iðulega með viðkomu í bakaríinu þar sem keypt var "et af dagens grove tilbud" og svo ein svona rjómabolla! Ég hef reynt að endurgera þessa sætu synd og hér er útkoman




Vatnsdeig - uppskrift hinnar frómu Helgu Sig

65 g smjörlíki
2 1/2 dl vatn
125 g hveiti
3 egg
salt, sykur

Smjörlíki (já ég nota líka smjörlíki) og vatn er brætt saman í potti, þar til allt er bráðið og vatnið sýður vel. "Hitinn minnkaður og allt hveitið látið í einu út í pottinn og hrært stöðugt í með sleif þangað til það er þykkt, jafnt og kekkjalaust og losnar við pott og sleif. Látið í skál og breitt upp um barmana. Salti og sykri stráð á, til þess að skán myndist ekki og látið kólna, en þarf ekki að verða alveg kalt. Eggin eru þeytt í sundur (öll sett í skál og pískuð saman) og hrært saman við hálfu og hálfu í einu og síðan hrært viðstöðulaust í 20 mín. í höndunum en skemur í hrærivél" svona lýsir Helga aðferðinni. Ég notaði auðvitað hrærivél og hrærði bara þangað til deigið var jafnt og mjúkt, skóf það einu sinni niður með sleikju og hrærði örlítið lengur. Hún ráðleggur síðan að reyna að hafa bollurnar eða lengjurnar sem jafnastar að stærð á plötunni því þær þurfa nákvæman bakstur. Bakað við 200°C í 20 mínútur, látið kólna á grind. Forðist að opna ofninn meðan kökurnar eru að bakast, segir Helga, svo þær falli ekki.

Mokkarjómi
1 tsk skyndikaffiduft
1 tsk vanillusykur
2 msk rjómi
- og svo það sem eftir er úr pela af rjóma

Setjið kaffiduft og vanillusykur í skálina sem þið ætlið að þeyta rjómann í, hrærið tveimur matskeiðum af rjóma út í og leyfið að standa smá stund, eða meðan þið gerið karamellubráðina, þið getið hrært í þessu annað slagið þar til kaffið hefur náð að leysast upp en það tekur smá stund því þetta er kalt.

Karamellubráð
1/2 dl smjör
1 dl púðursykur
1/4 dl rjómi
vanilludropar, 1 - 1 1/2 tappi
1-1 1/2 dl flórsykur


Smjörið brætt í potti og púðursykurnum síðan hrært saman við. Þegar það hefur bráðnað saman er rjómanum bætt út í og suðan látin koma upp, hrært í á meðan, leyfið karamellunni að malla í ca 2 mínútur. Takið pottinn af hitanum og hrærið vanillunni saman við og látið bíða. Þið getið farið að þeyta rjómann, bætið bara restinni úr pelanum saman við og þeytið, og þið getið sett í bollurnar á meðan karamellan kólnar. Síðan er karamellan sett í skál og flórsykri hrært saman við þar til hún er passlega þykk, þið gætuð þurft að þynna með örlitlu vatni til að fá hana til að renna aðeins.

Síðan er bara að hita gott kaffi, gefa ástvinum sínum að smakka og njóta vel.
Bon appetit!

Ummæli

  1. Bestu bollur sem eg hef smakkad, og tel eg sjalfa mig vera serfraeding :D Takk kaerlega fyrir ad deila upskriftinni. Karamellubradin og rjominn, taer snilld!

    SvaraEyða
    Svör
    1. Takk Elísabet, gott að mér tókst að gleðja þig :)

      Eyða

Skrifa ummæli