Snúðar

Gerbakstur hefur ekki verið mín sterka hlið hingað til og ég var eiginlega hætt að reyna, en ákvað nýlega að endurnýja kynnin við Tupperware hnoðskálina mína og okkur hefur bara gengið vel að vinna saman. Hér er uppskrift að alveg lungamjúkum snúðum sem gott er að eiga í frysti og grípa til á góðum degi.


Ég hef komist að því að best er að byrja með ca. 100-150 grömmum minna af mjöli en uppskriftir segja til um og sjá svo til hversu mikið maður þarf að bæta við í hnoðunina eftir að deigið hefur hefað sig. Eins er ráð að gefa sér góðan tíma við þetta, gerbakstur lukkast ekki í stressi og það þarf að passa vel að deiginu sé hlýtt allan tímann.

700 g hveiti (í uppskriftinni segir 850 g)
1 1/2 tsk sykur
1 pk þurrger
1 1/2 tsk salt
70 g matarolía (í uppskriftinni er talað um bráðið smjörlíki í sama magni)
5 dl mjólk
1 tsk kardimommudropar

Þurrefnin eru sett í skálina og þeim hrært saman. Mjólkin er velgd ásamt olíunni og passlegur hiti er þegar þér finnst hún hvorki heit né köld þegar þú dýfir fingrinum í. Kardimommudropunum bætt við vökvann og honum hellt í skálina. Lokið sett á og síðan taka við léttar líkamsæfingar við að hrista og velta skálinni, ég stíg gjarnan léttan dans og geri þetta í léttum takti. Þegar deigið hefur blandast á það að velta um í skálinni eða vera eins og hnausþykkur grautur. Hálffylla eldhúsvaskinn af ylvolgu vatni og láta skálina standa þar. Þegar lokið losnar frá er kominn tími til að vinna áfram með deigið. Þetta getur tekið um klukkutíma.

Þá er mjöli sáldrað á borðið og deigið hnoðað létt, rólegar jafnar hreifingar og deigið er tilbúið að fletja út þegar það er hætt að klessast við borðið. Þá er því skipt í tvennt og flatt út frekar ílangt og ekki of þunnt, ca. 5-7 mm á þykkt. Penslað með mjólk og kanilsykri stráð yfir. Þá er því rúllað nokkuð þétt upp og skorið í ca. 2 sm þykkar sneiðar sem er raðað á bökunarpappír á plötu.


Nú þurfa snúðarnir að fá að hefast aftur áður en þeir eru bakaðir. Ég bý svo "vel" að eiga eldgamla eldavél sem hitar vel út frá sér og ég hita ofninn í 100 gráður og set plöturnar ofan á hellurnar og þar líður gerdeiginu mínu mjög vel. Ég breiði hrein viskustykki yfir snúðana og leyfi þeim að bíða í hlýjunni í 45-60 mín. Þá hækka ég hitann í 200°C og baka þá í 13-15 mín.

Síðan er bara að leyfa þeim að kólna undir viskustykki (til að halda rakanum í þeim og þá verða þeir mýkri) og skreyta með glassúri eða bráðnu súkkulaði.


Bon appetit!

Ummæli