Súkkulaði soufflé

Álfrún dóttir mín kom með þessa uppskrift um daginn og vildi endilega prófa hana. Ég hafði aldrei gert soufflé áður en horft á marga matreiðsluþætti þar sem það mistekst og kveið því svolítið að gera þetta - en það þýðir ekkert og þó að souffléið okkar félli aðeins, var það samt ljómandi gott.


Til að smyrja skálar (6-8 litlar eldfastar skálar):
5 msk smjör (brætt)
4-5 msk sykur
1-2 msk kakó

Skálarnar smurðar með smjörinu og sykur/kakó blöndu dreift inn í þær, gott að setja smá í botninn og snúa skálinni uns blandan þekur líka hliðarnar.

Soufflé-ið:
60 g smjör
40 g hveiti
2 1/2 dl mjólk
1 1/5 tsk vanilludropar
175 g dökkt súkkulaði (70%) saxað
5 eggjarauður
140 g sykur
6 eggjahvítur

Bræðið smjör í potti, bætið hveiti út í og hrærið saman, vætið í með mjólk, smátt og smátt og búið til kekkjalausan jafning með því að hræra vel á milli. Bætið vanilludropunum og súkkulaði út í og blandið vel saman. Þeytið eggjarauðurnar í skál ásamt 70 g af sykri og bætið í jafninginn. Þetta allt má gera með góðum fyrirvara.

Hitið ofninn í 200°C. Stífþeytið eggjahvítur í skál og bætið afganginum af sykrinum (70g) smám saman út í og þeytið í 2-3 mínútur. Bætið eggjahvítunum varlega saman við súkkulaðiblönduna, fyrst smávegis og síðan öllu.

Hellið deiginu í soufflé-skálarnar, þær mega vera alveg fullar og bakið þær í 16-18 mínútur. ALLS ekki opna ofninn á meðan kökurnar eru að bakast. Soufflé rís mikið í ofninum og hjá okkur flæddi aðeins út úr formunum, þær féllu aðeins þegar þær kólnuðu en það kom ekki að sök.

Bornar fram volgar með bráðnu rjómasúkkulaði og þeyttum rjóma.

Bon appetit!


Ummæli