Kjúklingur af frönskum ættum

Rigningarspá kallaði á kósíheit og bragðmikinn ofnrétt úr kjúklingi sem annars hefði lent á grillinu. Þessi réttur er tilbrigði við klassískan franskan kjúklingarétt (Poulet à l'Estragon) sem til dæmis má finna hér en ég ákvað að impróvisera aðeins og hafa kjúklinginn á beði af grænmeti og hluta hann í sundur líka.



Ég tók upp undan tveimur grösum af íslenskum rauðum, náði í 3 næpur úr garðinum og sæta kartöflu (úr Bónus :). Ég átti bara þurrkað Estragon (sem sumir segja að komist ekki í hálfkvist við ferskt, en c'est la vie!) en bætti við örlitlu garðablóðbergi og fersku óreganói sem ég átti í kryddjurtabeðinu.

Ég hreinsaði og skar 3 litlar næpur í bita og setti í botn á eldföstu móti, sletti smá olíu yfir þær og bætti síðan við glænýjum kartöflum, ca. 200 g og hálfri sætri kartöflu sem ég skar í bita. Síðan þurfti að bjarga tveimur hvítlaukum frá yfirvofandi myglu og ég setti rif úr öðrum saman við, blandaði saman og kryddaði með bleiku himalajasalti og nýmöluðum svörtum pipar og örlitlu af estragoni og söxuðum kryddjurtum. Einn tengingur af kjúklingakrafti var mulinn yfir og loks var kjúklingabitum (einum ferskum kjúlla hlutuðum í 6 bita, bringur, læri og vængi) raðað yfir. Kjúklingurinn vel kryddaður með salti og pipar og estragoni og kryddi stráð á þá hlið sem sneri að grænmetinu fyrst. Þá hellti ég yfir kjúklinginn í ofnpottinum, 1/2 bolla af vatni og 1/2 bolla af hvítvíni og kryddaði svo ofan á kjúklinginn eins og undir. Þá skar ég hinn hvítlaukinn í smærri bita, hálfan rauðlauk og dreifði yfir og auk þess fóru nokkrar klípur af smjöri ofan á, ca. 25 g. og lokið yfir. Inn í ofn við 200°C í um klukkutíma.

Soðið síað frá og sett í pott, pela af rjóma bætt við og suðunni hleypt upp, bragðbætt með örlitlu Estragoni, smá slettu af hvítvíni, salti og pipar. Ég notaði Maizena sósujafnara til að þykkja hana örlítið.

Bon appetit!


Ummæli