Tandoori kjúklingur

Ég prófaði að kaupa Tandoori kryddblöndu í Tiger í vor en kom því ekki í verk fyrr en um daginn að prófa hana og hún er ljómandi góð, mild en bragðmikil. Ég hefði kannski kosið að hafa hana aðeins sterkari (eða heitari) en það fannst hinum fjölskyldumeðlimunum ekki. Uppskriftin er stór, fyrir 6 bringur eða 1 kjúkling sem er hlutaður í sundur og tvær auka bringur.

6 kjúklingabringur
(eða 1 kjúklingur, hlutaður í sundur, tvær bringur að auki eða fjögur læri)
2 dósir hrein jógúrt
5 matskeiðar Tandoori kryddblanda
2 hvítlauksrif, pressuð
safi úr 1 lime

Öllu hrært saman og dreift vel yfir kjúklinginn, ég skar rendur í lærin og bringurnar til að marineringin færi betur inn í kjötið. Þetta beið í ískáp í sólarhring.

Gott er að grilla Tandoori kjúkling en til stóð að prófa að steikja hann á Muurika pönnunni yfir opnum eldi, en eftir rigningartíðina var of blautt í eldiviðnum og gekk illa að fá hita í eldstæðið og því var gripið til þess að steikja kjúklingabitana á djúpri pönnu, hella síðan jógúrtsósunni yfir og láta þetta malla saman við vægan hita í ca. 20 mín.

Með þessu höfðum við að sjálfsögðu hrísgrjón, Naan brauð (úr pakka að þessu sinni) og ferskt salat úr garðinum og indverska jógúrtsósu með gúrku, eða Raitu.

Raita

1 dós hrein jógúrt
1/2 tsk malað cumin
1/2 tsk malað kóríander
hnífsoddur af salti og smá safi úr lime
1/2 agúrka, skorin í lengjur og fræhreinsuð áður en hún er söxuð í litla bita og sett saman við.

Bon appetit!

Ummæli