Kofta kjötbollur

Í rigningarsumrinu mikla hefur hugurinn leitað á suðlægar slóðir í stað grilluppskrifta og þessar tyrknesku kjötbollur vöktu þvílíka lukku að ég mátti til að setja uppskriftina hér



500 g. lambahakk
2 1/2 dl brauðrasp
1 egg
2-3 hvítlauksrif
1/2 tsk salt
1/2 tsk hvítur pipar
1 tsk cumin
1/2 tsk allrahanda
1/2 tsk mulið kóríander (má sleppa)
1 tsk þurrkuð mynta
2 msk þurrkuð steinselja

Allt sett í hrærivélarskál og hrært vel, eða þar til blandan er orðin þétt og loðir vel saman. Það er í góðu lagi að geyma þetta í kæli til næsta dags, en ég lét þetta standa meðan ég útbjó salat og jógúrtsósu og kom suðunni upp á hrísgrjónunum. Þá mótaði ég frekar litlar bollur og steikti í ólífuolíu, fékk ca. 12 bollur úr uppskriftinni. Það er líka gott að móta aflangar bollur og þræða upp á grilltein og grilla þær, en ef maður nennir ekki út í rigninguna með matinn sinn þá má vel steikja þetta inni.

Gult kúskús er líka ljómandi gott með, það er einfalt að skera hálfan lauk gróft og glæra í smjöri, setja túrmerik út í og dálitla papriku, kjúklingatening og vatn og bæta ókrydduðu kúskúsi út í þegar suðan er komin upp og láta standa ca. 5 mín.

Jógúrtsósa er afar góð með þessu, ég setti rúmlega teskeið af Zatziki kryddblöndu sem ég keypti í Tiger í eina dós af hreinni jógúrt og hrærði því vel saman, fræhreinsaði nýja íslenska tómata, saxaði þá fínt og setti saman við. Algengara er að nota gúrku, sem þá þarf líka að fræhreinsa svo jógúrtið haldi áferðinni, en það er góð tilbreyting að nota tómata.

Salatið kom ferskt úr garðinum, klettasalat, rautt og grænt blaðsalat. Smá gúrku bætt við og hálfri öskju af konfekttómötum en punktinn yfir i-ið setti vatnsmelóna í teningum og fersk mynta og basil úr eldhúsglugganum.

Við svona máltíð er allt í lagi að hann rigni aðeins :)

Bon appetit!

Ummæli