Hrakfallasulta


Þetta er hrakfallasultusaga því ég ætlaði að gera rabarbarasaft og brytjaði samviskusamlega 3 kg af síðasta rabarbara sumarsins í pott, setti vatn skv. uppskrift samanvið og sykur og fór að lesa aðferðina betur og uppgötvaði þá að ég átti ekki að setja neinn sykur strax. Bölvaði sjálfri mér fyrir fljótfærnina en ákvað að reyna að gera eitthvað gott úr þessu. Lét suðuna koma upp og lét þetta malla góða stund, en þar sem ég var þegar búin að gera slatta af rabarbarasultu ákvað ég að bæta einhverju bragðgefandi saman við og fann engiferbút í ísskápnum, flysjaði hann og skar í 3 góða bita og setti samanvið. Lét þetta sjóða áfram góða stund ca. 45 mín. Enn var þetta nokkuð þunnt og ég ákvað að frysta ca. helminginn til að nota síðar í súpu eða graut því ég átti bara 1 pk af Melamin. Skar síðan engiferbitana í litla bita og bætti svo Melamin pakkanum saman við og lét krauma áfram í 10 mín. Setti á krukkur. En daginn eftir var þetta enn ekki hlaupið. Því ákvað ég að ég skyldi bara kaupa jarðaber (ekki til meiri rabarbari), hafði séð fersk og girnileg jarðaber í Bónus í Borgarnesi og fór þangað næsta dag, en fersku jarðaberin voru búin. Ákvað í búðinni að frosin ber væru örugglega jafngóð í sultu og keypti auk þess tvo melamín pakka, bláa til að nota í þetta gums. Þegar heim kom setti ég 700 g af jarðaberjum í pott og 350 g af sykri og lét suðuna koma upp, þegar þetta var orðið að góðum graut setti ég úr krukkunum saman við, lét það malla í ca. 15 mín og bætti þá báðum Melamin pökkunum saman við og lét krauma áfram í 10 mín. Setti aftur á krukkurnar sem ég hafði skolað og hitaði í ofninum við 100°C smástund. Útkoman var frábærlega góð. Svo góð að ég ákvað að taka þátt í árlegri sultukeppni Landbúnaðarháskóla Íslands, og þar fékk þessi sulta 1.-2. verðlaun þrátt fyrir hrakfarirnar, þar sem ekki þótti hægt að gera upp á milli hennar og brómberjasultu einhverrar ágætrar konu.

Í einfaldaðri útgáfu held ég að uppskriftin væri einhvern veginn svona:

1.5 kg rabarbari
700 g jarðaber (mega vera frosin)
1100 g sykur
Engiferbiti, ca. 10 sm, afhýddur og skorinn í litla bita.
2 pk Melamin (blár – fyrir sykurminni sultur)

Bon appetit!

Ummæli

Skrifa ummæli