Baka með skinku, blaðlauk og grænkáli



Bökudeig:

300 g hveiti
1/2 tsk salt
140 g smjör
1 eggjarauða
1-2 msk kalt vatn

Hnoðið smjör, hveiti og salt. Bætið eggjarauðu saman við og 1 msk vatn og hnoðið áfram, bætið vatni saman við uns þið náið í góða þétta kúlu. Geymið í kæli í ca. hálftíma. Fletjið þá út og setjið í bökuform og bakið með fargi í 10-12 mínútur við 220°C. Fargið getur verið hrísgrjón eða þurrkaðar baunir sem settar eru á bökunarpappír eða álpappír.



Fylling:
300-400 g köld skinka
1 stór blaðlaukur eða 2 minni
2 greinar grænkál
6 egg (5 + eggjahvítan sem gekk af í bökudeiginu)
4 dl rjómi (ég nota gjarnan kaffirjómapela og 1 1/2 dl mjólk)
salt og nýmalaður pipar

Þegar bakan er tekin út úr ofninum er fargið tekið af og skinkubitum raðað í botninn, þá blaðlaukssneiðum sem steiktar hafa verið í olíu og pipar dreift yfir. Grænkálið er skorið í þunnar sneiðar og settar á sömu pönnu og blaðlaukurinn var steiktur í, 1/2 dl af vatni bætt á pönnuna og kálið léttsoðið. Þá eru eggin sett í skál og rjóma og mjólk bætt saman við, salt og pipar og blandan þeytt uns hún freyðir. Síðan er henni hellt varlega yfir fyllinguna og bakað áfram í 40-45 mín. Ef grænkálið fer að brenna þarf að setja álpappír yfir bökuna meðan hún er í ofninum. Ég klikkaði aðeins á því og þess vegna er grænkálið aðeins brennt hjá mér á efstu myndinni ;)


Bon appetit!

Ummæli