Quiche Lorraine með lauk

Hin fræga Quiche Lorraine er yfirleitt bara með beikoni og eggjablöndu - þessi er þó alls ekki síðri

Bökudeig:

300 g hveiti
1/2 tsk salt
140 g smjör
1 eggjarauða
1-2 msk kalt vatn

Hveiti, salti og smjöri hnoðað saman, vætt með eggjarauðu og köldu vatni bætt í eftir þörfum uns deigið er mjúkt og springur ekki. Hnoðað í kúlu og geymt í kæli í ca. 30 mín. Flatt út og sett í frekar stórt bökuform, látið deigið ná vel upp hliðarnar. Breiðið álpappír yfir deigið og setjið eitthvað sem þyngir á hann, t.d. hrísgrjón eða þurrkaðar baunir og bakið við 220°C í 10-12 mínútur.

Fyllingin:
200 g beikon, steikt uns stökkt á pönnu, látið bíða á eldhúspappír
5 laukar, skornir í sneiðar, steikið laukinn uns gullinn og mjúkur í beikonfeitinni og etv. smá olíu, kryddið með timían og salti og svörtum pipar, minnkið hitann ef hann ætlar að verða of dökkur, settur til hliðar á disk.
6 egg (ég læt 5 nægja og hvítuna af egginu sem ég notaði rauðuna úr í deigið)
400 ml rjómi (matreiðslu- eða kaffirjómi)
salt og ferskmalaður svartur pipar.
Etv. smá rifinn bragðmikill ostur, t.d. Cheddar

Aðferðin:
Þegar bökuskelin hefur verið bökuð með farginu eins og lýst er að ofan er hún tekin út úr ofninum, fargið fjarlægt og beikonsneiðunum eða bitum dreift í botninn, því næst koma lauksneiðarnar. Þá eru eggin sett í skál ásamt rjóma og þeytt saman smá stund, saltið og piprið og hellið blöndunni yfir fyllinguna. Dreifið osti yfir ef þið viljið. Setjið aftur í ofninn og bakið áfram í 35-40 mínútur.

Látið bökuna kólna í 10-15 mínútur áður en hún er borðuð, með fersku salati og góðu rauðvíni.

Bon appetit!


Ummæli