Coq au vin

Bókstaflega þýðir þetta "Hani í víni" en hér er notast við kjúkling. Upphaflega uppskriftin er úr bókinni "Franskur sveitamatur" sem MAB gaf út fyrir mörgum árum.

1 stór kjúklingur
2 msk ólífuolía
2 msk smjör
4 sneiðar beikon, skorið í bita
250 g litlir laukar, perlu- og /eða sjalottlaukar
250 g sveppir
salt og pipar
1 msk Herbs de Provence kryddblanda (eða timiangrein)
2 lárviðarlauf
1 msk steinselja
2-4 hvítlauksrif
1/2 flaska Bourgogne rauðvín (ég hef notað ódýrara Pinot Noir rauðvín)
1 msk smjör
1 msk hveiti

Byrjið á að hluta kjúklinginn í 7 bita, lærleggi, bringur, vængi og bak. Þerrið kjúklingabitana og kryddið með salti og pipar. Hitið 1 msk af olíu og bætið 1 msk af smjöri saman við. Brúnið beikonið og færið það síðan í eldfast fat. Brúnið næst laukana og nokkra hvítlauksgeira e. smekk, afhýdda en heila og færið þá síðan í fatið með beikoninu. Bætið smjöri og olíu á pönnuna og brúnið næst kjúklingabitana á öllum hliðum, ég nota bakið líka til að fá aukinn kraft í sósuna. Raðið þeim í fatið yfir beikonið og laukana. (Hér á skv. upprunalegu uppskriftinni að setja 4 msk koníak og kveikja í, ég hef aldrei tímt því.) Dreifið Herbs de Provence kryddblöndunni yfir, setjið lárviðarlaufin ofan í og hellið síðan fatið hálffullt af rauðvíni.

Bakið í 200°C heitum ofni í 40 mín, snúið bitunum amk einu sinni. Að þessum tíma loknum tek ég kjúklingabakið úr fatinu. Brúnið sveppina heila og/eða hálfa e. stærð í feitinni sem eftir er á pönnunni og bætið þeim saman við réttinn. Sjóðið áfram í ofninum í kortér. Hnoðið saman smjöri og hveiti á meðan í litla kúlu. Takið fatið úr ofninum og hrærið smjör/hveiti kúlunni í litlum skömmtum saman við soðið og smakkið til með salti og pipar. Bakið áfram í 5 mínútur.

Borið fram með snittubrauði, fersku salati og Vinaigrette dressing.

Bon appetit!

Ummæli