Tortillur með fiski

Ég rakst á þessa uppskrift á netinu um daginn og kolféll fyrir henni, holl og bragðmikil. Upprunalega útgáfan með fallegum myndum er hér.

Lárperumauk - Guacamole

1 stór lárpera (eða 2 litlar)
1/2 grænn chili
1-2 vel þroskaðir tómatar 
1/2 rauðlaukur
1/3 box af ferskum kóríander
safi úr einu Lime eða 1/2 sítrónu

smá salt



Skafið innan úr lárperunni með skeið og brytjið í skál ásamt smátt söxuðu chili, maukið með töfrasprota en lárperan þarf ekki að verða algjörlega að mauki, það mega vera smá bitar. Saxið tómatinn fínt og bætið saman við lárperumaukið. Saxið kóríander fínt og bætið saman við. Bætið við lime safa og bragðbætið með salti. 

Mexíkóskt tómatsalat - Pico De Gallo

340 g tómatar - ég notaði 6 velþroskaða tómata
1 lítill jalapeno pipar - ég notaði 6 sneiðar úr krukku, en það hefði mátt vera meira
1/2 knippi af fersku kóríander
1/4 rauðlaukur
safi úr einu Lime

Saxið tómatana og laukinn mjög smátt og blandið saman í litla skál. Fræhreinsið jalapeno og saxið jafn smátt og hitt. Bætið saman við tómatana og laukinn. Saxið kóríander fínt og blandið saman við. Hrærið að lokum Lime safanum saman við og leggið til hliðar.

Snöggsteiktir fiskbitar

300 g ýsa (eða annar þéttur hvítur fiskur)
2/3-3/4 bolli hveiti - ég notaði heilhveiti
1/2 tsk salt
1/8 tsk pipar - ég notaði hvítan pipar en það má vel vera svartur
Olía og smjör - ca 1 msk af hvoru

Skerið fiskinn í fingurþykka bita (1-1 1/2 sm.), þvert yfir flakið og veltið þeim uppúr hveitinu. Hitið olíu og smjör á pönnu og þegar það er orðið heitt er bitunum dreift yfir pönnuna. Steikir í ca mínútu á hvorri hlið, eða uns gullinbrúnir. Veltið þeim með tveimur göfflum. Takið fiskinn af pönnunni og leggið á eldhúspappír.

Saxið um það bil 1/8 úr Icebergsalati og setjið í skál.
8-12 litlar tortillukökur - ég fann heilhveititortillur í Bónus um daginn og notaði þær.

Hitið tortillurnar og smyrjið fyrst lárperumauki og dreifið iceberg salati yfir. Þá nokkra fiskbita og loks tómatsalat. Í upprunalegu uppskriftinni er rétturinn toppaður með Jalapeno mæjonesi, en ég sleppti því og það kom ekki að sök.

Bon appetit!

Ummæli