Fiskisúpa með miðjarðarhafsblæ

Þetta er ein af mínum uppáhalds því hún minnir mig á þegar ég vann á Sælkeranum í Austurstræti fyrir löngu síðan, en þá þótti fiskisúpan þar vera sú besta í bænum. Þessi minnir á hana.




1 msk smjör
1 msk ólífuolía
2-3 hvítlauksrif, kramin eða söxuð
1 blaðlaukur, smátt saxaður
2-3 gulrætur, skornar í sneiðar
1 græn paprika, smátt söxuð 
2-3 tsk blandaðar ítalskar kryddjurtir (timían, oregano og basil)
1 lítri fisksoð (vatn og teningur)
1 lítil dós tómatpuré
1 dós saxaðir tómatar
1 peli rjómi
salt og pipar e. smekk
300 g fiskur e. smekk, ýsa, þorskur, silungur, lax
200 g rækjur eða sjávarréttablanda
200 g hörpuskel
bragðbætt með salti eða Herbamare og pipar

Glærið lauk og hvítlauk í feitinni, bætið þá karrýi saman við og restinni af grænmetinu. Látið það aðeins mýkjast. Þá er kryddjurtunum bætt út í og hrært saman við grænmetið. Síðan er sett vatn og fiskikraftsteningur og tómatpuré. Þetta er látið krauma uns grænmetið er alveg mjúkt. Þá er rjómanum bætt úr í og súpan smökkuð til og bragðbætt ef þarf. Suðunni er hleypt upp áður en fiskurinn er settur útí, skorinn í munnbitastór stykki og öðru fiskmeti bætt í pottinn. Súpan á alls ekki að sjóða eftir að fiskurinn fer saman við, heldur er hún látin standa smá stund.
Skreytið með ferskri steinselju.

Borðuð með góðu brauði.

Bon appetit!

Ummæli