Súkkulaðidöðlurjómaterta

Þessa bakaði ég uppúr Gestgjafablaði og hafði í fermingu Sunnu. Hún er afskaplega góð en verður að fá tíma til að mýkjast upp.



Botnar:
6 egg
225 g sykur
175 g púðursykur
275 g hveiti
150 g döðlur, saxaðar (meira í skraut ef vill)
100 g kókosmjöl
1 tsk kakóduft
2 tsk lyftiduft
1/2 tsk matarsódi


Hitið ofninn í 180°C. Þeytið saman egg, sykur og púðursykur þar til allt er orðið ljóst og létt. Blandið saman í skál hveiti, döðlum, kókosmjöli, súkkulaði, kakói, lyftidufti og matarsóda og hrærið út í eggjablönduna. Bakið í tveimur hringlaga formum í 20 mín. 

Fyllingin:
1/2 lítri rjómi
320 g suðusúkkulaði
2 epli, græn
sítrónusafi
200 g bláber
1 dós sýrður rjómi (36%)
þeyttur rjómi til skreytingar (1/2 lítri)

súkkulaðidropar eða annað súkkulaðiskraut

Þeytið rjómann, bræðið 120 g af súkkulaði yfir vatnsbaði og hellið út í rjómann smátt og smátt. Afhýðið eplin og skerið í þunnar sneiðar. Hellið sjóðandi heitu vatni yfir þau. Setjið nokkra dropa af sítrónusafa út í vatnið. Látið standa í u.þ.b. 1-2 mín. Sigtið og þerrið eplin og setjið í kæli. Setjið súkkulaðirjómann, eplin og bláberin á milli botnanna. Bræðið 200 g af súkkulaði yfir vatnsbaði og blandið sýrða rjómanum út í þegar súkkulaðið er bráðið. Setjið yfir kökuna og dreifið vel úr því, t.d. með pönnukökuspaða. 

Best er að setja fyllinguna á milli botnanna 8-10 klst. áður en tertan er borin fram, t.d. kvöldið áður, því hún er best þegar fyllingin hefur náð að mýkja hana.

Sprautið að lokum þeyttum rjóma á hliðarnar og skreytið með döðlum og súkkulaðiskrauti.

Bon appetit!

Ummæli