Kaka með trönuberjum og eplum

Þessi uppskrift er frá Rögnu Steinarsdóttur, vinnufélaga mínum en þar sem hún fellur ekki alveg að þeim innkaupamöguleikum sem ég bý við núna hef ég þurft að breyta henni örlítið.

1¾ bolli ljós púðursykur (eða dökkur + hvítur)
½ bolli matarolía
2 egg
1 tsk kanill
½ tsk múskat
1 tsk salt – eða heldur minna (¾ tsk)

1 tsk vanilludropar
2 bollar hveiti (má nota fínmalað spelt eða heilhveiti til helminga)
1 tsk matarsódi
½ bolli valhnetur, brotnar
2 matarepli (frekar súr) flysjuð, kjarnhreinsuð og skorin í litla teninga
240 g fersk trönuber (cranberries, ónýt ber hreinsuð frá) 
- hér er helsta breytingin, en ég nota 200 gr. þurrkuð trönuber og helli þeim í skál og læt um það bil hálfan bolla af heitu vatni (nýsoðnu vatni) út á þau og læt þau standa í ca. hálftíma. Ég nota síðan safann líka, því það veitir ekkert af honum.

Olía og sykur þeytt saman, eggjum og vanilludropum og kryddi bætt við og þeytt áfram. Þurrefnin sigtuð saman við og hrært áfram eftir því sem hægt er, en deigið verður frekar stíft. Eplum, valhnetum og útvötnuðum trönuberjum + safa hrært saman við, með sleif ef vélin þín ræður ekki við það.

Bakað í smurðu, eldföstu móti, 30x40, við 175°í 45-50 mín. Það má líka baka kökuna í jólakökuformi, en þá þarf aðeins lengri tíma og kannski aðeins lægri hita.

Bon appetit!

Ummæli