Kjúklingur í súrsætri sósu

Súrsæt sósa var með því fyrsta sem ég komst í kynni við af kínverskum mat, þessi uppskrift er komin til ára sinna, en ég fékk hana á kínverskum veitingastað. Það er eins og með allt annað, að súrsæt sósa unnin frá grunni og súrsæt sósa úr krukku eru bara ekki sambærilegar á nokkurn hátt og þetta er alls ekki flókið að gera.



1 kjúklingur - hlutaður í bita, eða 4 bringur eða 5-6 efri læri.

Í raun má nota hvort sem er kjúkling eða svínakjöt og jafnvel fisk í þennan rétt. Setjið dálitla olíu í botn á eldföstu móti og raðið kjúkling (kjöti eða fiski) í botninn og kryddið með salti og pipar, leggið til hliðar.

Súrsæt sósa með grænmeti

1 msk olía
2-3 hvítlauksrif, kramin
2 sm biti engifer, rifinn
1 laukur, saxaður gróft
1 lítil græn paprika, skorin í strimla
3 gulrætur, skornar í strimla (eða stór rauð paprika)

2 dl tómatsósa, ekki venjuleg heldur ósæt eða ein dós af söxuðum tómötum
2 msk vínedik
1 msk soyasósa
3 msk púðursykur

1 lítil dós ananas + safinn, saxið ananasinn ef þið notið hringi en það er líka í lagi að nota kurlaðan ananas
1 tsk salt
1/4 tsk pipar


Grænmetið er steikt í olíunni á pönnu í smástund án þess að brúna það. Þá er tómatsósu, ediki, soyasósu, púðursykri og kryddi bætt saman við og hitað að suðu. Síðast er ananas og safa bætt útí og soðið áfram í 1-2 mínútur. Smakkið til og bætið við ediki, soya, salti eða pipar eftir smekk.

Hellið súrsætu sósunni yfir kjúklinginn í ofnfatinu og lokið því með álpappír.

Bakið í ofni í 20-30 mínútur við 200°C. Þá er álpappírinn fjarlægður og rétturinn bakaður áfram í aðrar 15-20 mín.

Borið fram með soðnum hrísgrjónum.

Bon appetit!

Ummæli